Arion banki: Tilkynning varðandi endurkaup eigin hlutabréfa
Vísað er til fréttatilkynningar frá Arion banka hf. sem birt var 5. júlí 2024, þar sem tilkynnt var að Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefði veitt bankanum heimild til að framkvæma endurkaup á eigin bréfum á Íslandi og á heimildarskírteinum útgefnum í Svíþjóð (SDR).
Hluti þeirrar heimildar til endurkaupa, að andvirði 5 milljarða króna, var veittur með fyrirvara og bundin því skilyrði að heimildin verði eingöngu nýtt til endurkaupa hluta sem samsvara því viðbótar eigin fé sem myndast við útgáfu hlutafjár komi til nýtingar áskriftarréttinda ARIONW24 (ISIN IS0000032761)(„áskriftarréttindin“). Áskriftarréttindi að fjárhæð 5,04 milljarða króna hafa þegar verið nýtt á þessu síðasta nýtingartímabili en nýtingartímabilinu lýkur 24. ágúst 2024.
Stjórnendur bankans hafa nú ákveðið að endurkaup á grundvelli skilyrtu heimildarinnar verði framkvæmd með útboðsfyrirkomulagi þar sem öllum hluthöfum (þ.m.t. eigendum SDR) gefst kostur á þátttöku. Endanleg dagsetning og skilmálar útboðsfyrirkomulags, þ.m.t. hámark endurkaupafjárhæðar, verða tilkynnt síðar.
Komi til þess að ofangreind heimild bankans til endurkaupa verði ekki fullnýtt að loknum endurkaupum með útboðsfyrirkomulagi mun bankinn taka til skoðunar hvort núverandi endurkaupaáætlun, sem tilkynnt var um 25. júlí 2024, verði stækkuð til samræmis við þá heimild sem eftir stendur.