Arion banki hættir samstarfi við S&P og verður með eitt alþjóðlegt lánshæfismat frá Moody‘s
Arion banki hefur ákveðið að nýta þjónustu frá einu alþjóðlegu lánshæfismatsfyrirtæki, Moody‘s Ratings. Þar af leiðandi hefur bankinn sagt upp samningi sínum við S&P Global Ratings. Arion banki hefur verið með lánshæfismat frá bæði S&P og Moody‘s síðastliðin tvö ár. Ákvörðunin kemur í kjölfar heildarendurskoðunar á þörfum bankans á þessu sviði.
Eins og kom fram á Markaðsdegi Arion banka 1. mars síðastliðinn þá hefur bankinn verði með fyrirkomulag lánshæfismats sem bankinn kaupir af alþjóðlegum matsfyrirtækjum í endurskoðun. Lánshæfismatseinkunn Arion banka hjá S&P er BBB+ með stöðugum horfum en lánshæfismatið var nýlega hækkað úr BBB.
Meðal þeirra þátta sem Arion banki horfði til við endurskoðun á fyrirkomulagi lánshæfismats var fyrirkomulag lánshæfismats sambærilegra banka á Norðurlöndum, hvernig aðferðfræði við mat á lánshæfismati styddi við framtíðarstefnu Arion banka í banka- og tryggingarrekstri og kröfu fjárfesta og annarra haghafa um vandað og viðurkennt lánshæfismat.
Niðurstaða endurskoðunar bankans sem unnin var með aðstoð erlendra ráðgjafa var að eitt lánshæfismat væri hæfilegt til að mæta kröfum bankans og fjárfesta og að heppilegt væri að viðhalda lánshæfismati frá Moody‘s. Lánshæfismatseinkunn Arion banka hjá Moody's er A3 með stöðugum horfum.